Lundarskóli gerðist heilsueflandi grunnskóli haustið 2011. Með heilsustefnunni er leitast við að skapa skólaumhverfi sem stuðlar að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu og vellíðan nemenda og starfsfólks í samvinnu við heimili og nærsamfélag. Hugmyndin um heilsueflandi grunnskóla er byggð á Ottawa-sáttmála Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um heilsueflingu. Sérstök áhersla er lögð á að vinna með átta lykilþætti sem tengjast skólastarfinu. Þessir þættir eru: nemendur, nærsamfélag, hreyfing og öryggi, mataræði og tannheilsa, heimili, geðrækt, lífsleikni og starfsfólk. Heilsa nemenda ræður miklu um hvort þeir getu stundað skólann og hvernig þeim gengur í náminu
almennt. Skólinn er þess vegna kjörinn vettvangur til að hvetja til heilsueflingar sem og hafa áhrif á viðhorf til heilbrigðra lífshátta. Nær öll börn og ungmenni verja verulegum hluta tíma síns í skólanum. Á þessu skeiði ævinnar læra þau um heilbrigt líferni, öðlast margvíslega
þekkingu. Mikilvægt er að geta haft áhrif á viðhorf þeirra í þeim tilgangi að gera þeim mögulegt að feta farsælan farveg sem mun hafa jákvæð áhrif á heilsu þeirra og líf í framtíðinni. Almennt má segja að sjónir manna beinist æ meira að skólunum því það eru menntastofnanir þar sem heilsuefling getur skipt verulegu máli. Skólinn hefur sett sér stefnu í heilsueflingarmálum þannig að kennarar, foreldrar, nemendur og aðrir sem taka þátt í skólastarfinu hafi í höndum traustar leiðbeiningar og geti gripið til. Á þann hátt er hugmyndafræði Heilsueflandi skóla hugsuð og hægt er að móta umhverfið á þann hátt að heilbrigði er aðlagað inn í daglegt skólastarf. Heilsueflandi grunnskóli stuðlar einnig að tengingu heilbrigðis og menntmála, mótar samvinnu sem eflir samstarf við foreldra og skólayfirvöld.