Viðurkenning Fræðsluráðs 2017

Síðastliðinn miðvikudag voru veittar viðurkenningar Fræðsluráðs. Sigrúnu Kristínu Jónsdóttur var þar veitt viðurkenning fyrir framúrskandi jákvæðni og nýsköpun í skólastarfi. Í umsögn segir m.a.: „Ef spurt er hver er mesti gleðigjafinn í kennarahópnum þá er svarið Sigrún Kristín. Hún er alltaf glöð og deilir með okkur skemmtilegheitum og gamansögum af samferðarfólki og eigin hrakföllum. Kennarastarfinu fylgja ýmsar áskoranir og Sigrún Kristín hefur lag á að sjá spaugilegar hliðar á aðstæðum og getur gert grín að sjálfri sér. Þess vegna er hún eftirsóttur samstarfsfélagi. Hún hefur leitt starfið í Heilsueflandi skóla hér í Lundarskóla af mikilli röggsemi og jákvæðni og fengið fólk með sér í hreyfingu og útivist, og á það við um bæði samstarfsfólk og nemendur. Sigrún Kristín er félagi í Hjólreiðafélagi Akureyrar og hefur í vetur þróað valgreinina Hjólreiðar sem hefur sannað sig í  Lundarskóla og verður í boði fyrir nemendur í öðrum grunnskólum næsta vetur.“

Við óskum Sigrúnu innilega til hamingju með viðurkenninguna.