Páskar og skipulag

Undanfarnar vikur höfum við upplifað saman tíma sem engum óraði fyrir. Heimsfaraldurinn sem nú gengur yfir hefur verið ógnvekjandi á köflum, framvindan hröð og með aðgerðum sem við höfum ekki upplifað áður. Í þessum aðstæðum hefur skólasamfélagið lagt sitt af mörkum til að mæta námi, líðan og þörfum nemenda eftir bestu getu. Það er gott að finna hve þétt við stöndum saman þegar á reynir og allir gera sitt besta til að halda bæði skólanum og samfélaginu gangandi.

Senn líður að páskum, nemendur Lundarskóla fara í páskafrí og einnig líður að páskafríi hjá starfsfólki skólans. Eftir páska byrjar skólastarfið með sama sniði og verið hefur. Samkomubann verður áfram til a.m.k. 4.maí og reiknum við ekki með miklum breytingum á skólastarfinu þangað til því lýkur. Ef eitthvað breytist þá fá allir upplýsingar um breytingar í tölvupósti og einnig verða upplýsingar settar á heimasíðu skólans. Þess má geta að öllum nemendum skólans er heimilt að mæta í skólann eftir páskafrí samkvæmt skipulaginu sem er í gildi og er það á höndum foreldra/forráðamanna að taka ákvörðun um mætingu í skólann. Kennarar haf unnið rafrænt með nemendum sem ekki mæta á svæði og/eða hafa verið í samskiptum við heimilin varðandi nám nemenda.

Frístund verður með sama hætti og verið hefur. Nemendur í 1. og 2.bekk geta sótt Frístund í samræmi við skráningu. Mikilvægt er að hafa samband við skólann til að skrá nemendur ef foreldrar ætla að nýta sér hana.

Við þökkum fyrir gott samstarf og samábyrgð síðustu vikur.
Gleðilega páska Elías, Fjóla Dögg og Maríanna,
skólastjórnendur Lundarskóla.