Útivist í 8. bekk

 

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Útivist í 8.bekk

Nemendur í 8.bekk geta valið sér útivist sem valgrein. Eitt stærsta verkefnið í þessari valgrein er ferð í Laugafell sem farin hefur verið árlega undanfarin ár. Að þessu sinni var farið föstudaginn 3.september. Lagt var af stað frá Lundarskóla á fjórum fjallabílum seinnipartinn og keyrt beint upp í Laugafell í mjög góðu veðri. Þegar þangað var komið komu menn sér fyrir og svo var vinsælt að skella sér aðeins í sundlaugina fyrir kvöldmatinn. Snæddur var góður kvöldmatur og eftir frágang var aftur mjög vinsælt að skella sér í laugina. Þegar vaknað var á laugardagsmorgun var snæddur góður og orkuríkur morgunverður og gengið frá og pakkað niður. Þá var komið að gönguferð en gengið var upp á Laugafellið sjálft sem er skammt frá skálunum. Ferðin gekk mjög vel og þegar við komum upp á fellið sáum við gufubólstra frá eldgosinu í Holuhrauni mjög vel. Næst á dagskrá var ökuferð niður að Aldeyjarfossi með matarstoppi á leiðinni. Gosmökkurinn sást alltaf mjög vel og vakti mikla athygli hjá flestum. Þegar að Aldeyjarfossi var komið stoppuðum við og gengum niður að honum og skoðuðum hann vel og vandlega. Því næst var ekið sem leið lá til Akureyrar og stoppað við Lundarskóla rúmum sólarhring eftir að lagt var af stað. Ferðin gekk í alla staði mjög vel og virtust allir mjög ánægðir.