Hugleiðingar tölvukennara

Kæru foreldrar og forráðamenn nú standa margir frammi fyrir erfiðri ákvörðun, hvað skal gefa krökkunum í jólagjöf? Ég ætla að biðja ykkur um að hugsa um ábyrgð ykkar þegar þið ákveðið hvað verður fyrir valinu. Einhverjir eru þegar búnir að ákveða að kaupa tölvuleik, þá þarf að hafa í huga að leikirnir eru merktir þeim aldursflokki sem þeir eru ætlaðir og það ber okkur foreldrum að virða.  Ætla má að aðalhættan birtist í ljótleika leiksins það er ef mikið er um dráp eða mikið blóð sést. En það er fleira sem þarf að athuga. Flestir tölvuleikir eru gerðir þannig að þeir hafa ávanabindandi áhrif á þann sem spilar leikinn og þar af leiðandi þarf að eyða sífellt meiri tíma í spilun leiksins. Tölvusýki er vaxandi vandamál og oft ekki gott að koma auga á vandamálið í upphafi. Í byrjun kemur þetta fram í færri samverustundum með fjölskyldu, einkunnir lækka og svefnleysi verður viðvarandi. Þegar sýkin nær algerlega yfirhöndinni þá geta komið skapofsaköst sem oft lýkur með meðferð á barna- og unglingageðdeild. Væri ekki tilvalið að gefa námsleik t.d. timez attack (margföldunarleikur) í jólagjöf eða einhvern góðan námsleik sem hæfir aldri barnsins. Ekki gefa börnum sem hafa einkenni tölvufýknar ávanabindandi leik í jólagjöf.

Verum skynsöm og gefum gjöf sem gleður og er um leið uppbyggileg.

jólakveðja, Atli Brynjólfsson