Fróðleikur

Kennsla í grunnskólum beinist fyrst og fremst að því að hjálpa nemendum að tileinka sér leikni, þekkingu og jákvætt viðhorf gagnvart námi sem þeir nýta sér til að ná þeirri hæfni sem stefnt er að í menntun.  Lundarskóli er skóli án aðgreiningar og þar ríkja fjölbreytt vinnubrögð og  kennsluaðferðir sem taka mið af þeim námsárangri sem stefnt er að hverju sinni. Kennarar eru fagmenn á sínu sviði og leggja sig fram við að velja árangursríkustu leiðirnar til að ná sem bestum námsárangri í samvinnu við nemendur. Leitast er við að mæta ólíkum þörfum nemenda og ábyrgð skólans er að veita eins góða menntun og á verður kosið. Það er réttindi hvers nemanda að öðlast alhliða menntun og fá kennslu við hæfi miðað við þroska þeirra og færni.  Nemendur bera einnig ábygð á náminu og hafa þar af leiðandi ákveðnar skyldur í skólanum. Skv. Aðalnámskrá grunnskóla eru þessi hugtök nátengd þar sem réttindum fylgja ávallt skyldur. Nemandinn  sem einstaklingur verður að læra að ber ábyrgð á sjálfum sér, námi  og gjörðum  sínum annars vegar og hins vegar sem hluti af hópi eða samfélagi/skólasamfélagi. Hér er bæði átt við þætti sem tengjast námi og félagslegri hegðun.