Árshátíð Lundarskóla

Árshátíð skólans verður haldin fimmtudaginn 8. febrúar nk.   Að venju sýna nemendur atriði á sviði skólans og í ár sýna nemendur í 2. – 8.bekk atriðin sín. Leiklistarval verður með sýningar á miðvikudagsmorgninum 7. febrúar. Er er það gert til að allir nemendur skólans hafi tækifæri til að sjá uppsetningu leiklistarvalsins.  Foreldrar eru velkomnir báða dagana gegn vægu gjaldi.

Árshátíðardagurinn er svo á fimmtudeginum 8. febrúar og þá er ekki kennt samkvæmt stundaskrá. Nemendur mæta aðeins á þær sýningar sem þeir eiga að horfa á og/eða leika á. Nánari upplýsingar um hópaskiptingar eru í höndum umsjónarkennara og einnig eru upplýsingar um mætingu nemenda í þeirra höndum.

Frístund opnar 8.00 fyrir þá nemendur sem eru skráðir í frístund og verður opin að venju til 16:00. Skráning fyrir árshátíðardaginn hefur nú þegar farið fram.

Ekki verður boðið upp á hafragraut þennan dag og einungis er gert ráð fyrir hádegismat fyrir þá nemendur sem skráðir eru í vistun. Gott er því að huga að því að nemendur séu með auka nesti ef við á þennan dag.

Aðgangseyrir á sýningar er 500 krónur fyrir fullorðna og nemendur í öðrum skólum, ókeypis er fyrir nemendur skólans og börn undir skólaaldri.  Þeir sem fara á fleiri en eina sýningu greiða aðeins einu sinni.  Miðasala hefst hálftíma fyrir sýningu.

Árshátíðarkaffi verður á sínum stað en með breyttu sniði og kostar 500 kr. Allur ágóði af sýningum og árshátíðarkaffinu rennur í ferðasjóð 10. bekkjar.

Við viljum minna á að nemendum skólans er skylt að mæta á sýningu sem þeir eru skráðir á þar sem hún telst vera hluti af skólatíma. Nemendur sem koma án foreldra mæta í sína stofu 15 mínútum fyrir sýningu sem þau eiga að horfa á.

Foreldrar barna sem sýna, mæta á sýningu sem þeirra barn tekur þátt í. Athugið að leikendur geta ekki sest hjá foreldrum sínum í salnum að leikriti loknu. Þeir munu bíða í sínum stofum þar til sýningu lýkur.

Gert er ráð fyrir að nemendur komi í betri fötum á árshátíðina.

Við hvetjum alla foreldra og skyldmenni til að koma í skólann og eiga ánægjulega stund með börnunum.

Góða skemmtun, starfsfólk Lundarskóla